Samið um réttindi vegna vindorkugarðs við Vaðöldu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samninginn í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í dag var undirritaður samningur milli íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um lands- og vindorkuréttindi vegna vindorkugarðs við Vaðöldu í Rangárþingi ytra, sem hið opinbera nefnir Búrfellslund en heimamenn réttilega Vaðölduver.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu samninginn og sagði forsætisráðherra fagnaðarefni að vindorkan verði þriðja stoðin í orkukerfi landsins.

Með samningnum veitir íslenska ríkið Landsvirkjun heimild til að reisa og reka vindorkuver á skilgreindu svæði sunnan Sultartangastíflu innan þjóðlendu. Landsvirkjun fær í því skyni tímabundinn afnotarétt að lands- og vindorkuréttindum á svæðinu en samningurinn gildir í 35 ár frá því að vindorkuverið hefur rekstur með mögulegri framlengingu einu sinni um 15 ár.

„Búrfellslundur“ var færður í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022 en Landsvirkjun hóf undirbúning verkefnisins árið 2010. Gert er ráð fyrir að allt að 30 vindmyllur verði reistar í vindorkugarðinum og að uppsett afl verði um 120 MW. Virkjunarleyfi vegna vindorkuversins var gefið út af Orkustofnun fyrr í vikunni og mun Lands­virkj­un í kjöl­farið sækja um fram­kvæmda­leyfi til sveit­ar­stjórn­ar Rangárþings ytra.

Fyrr í sumar samdi Landsvirkjun við Landsnet um flutning um tengingu vindorkuversins inn á raforkuflutningskerfið en áætlanir gera ráð fyrir að orka frá „Búrfellslundi“ verði farin að skila sér inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026.

Fyrri greinRannsaka hópsýkingu á Rangárvöllum
Næsta greinVilltir í þoku í Kerlingarfjöllum