Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Skaftárhreppur hafa gert með sér samning um tilraunaverkefni þar sem prófaðar verða lausnir fyrir úrgangsstjórnun sveitarfélaga.
Þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps, undirrituðu á dögunum samning sem felur í sér að Skaftárhreppur tekur að sér að prófa mismunandi lausnir í sorphirðu þar sem meðal annars verða gerðar tilraunir með snjalllausnir. Að verkefninu koma auk Skaftárhrepps, Háskóli Íslands og ReSource International ehf.
Ráðherra bindur miklar vonir við verkefnið
„Við þurfum fyrst og fremst að draga sem mest við megum úr myndun úrgangs, en sá úrgangur sem verður til er auðvitað ákveðin verðmæti. Þau verðmæti þarf að endurnýta og endurvinna í mun meiri mæli en gert er í dag og allra síst eigum við að urða úrganginn. Þetta er stórt loftslagsmál og kallar á sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til að ná meiri árangri í úrgangsmálum. Ég bind miklar vonir við að lærdómurinn af tilraunaverkefninu í Skaftárhreppi verði mikill og geti hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir í úrgangsmálum í framtíðinni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Snjallgámar láta vita þegar þeir fyllast
Tilraunaverkefnið felur í sér að sveitarfélaginu verður skipt upp í sex svæði þar sem verða prófaðar mismunandi leiðir í sorphirðu, en Skaftárhreppur er annað víðfeðmasta sveitarfélag landsins. Markmiðið er að finna sorphirðukerfi sem henta best íslenskum sveitarfélögum, jafnt í þéttbýli sem dreifðari byggðum, með tilliti til áhrifa á samfélag, efnahag og umhverfi.
Auk snjalllausna, sem munu gefa til kynna þegar gámar fyllast og reikna út bestu akstursleiðir milli þeirra, verða m.a. gerðar tilraunir með jarðgerð, fjölda flokkunartegunda og hvort að staðsetning á ruslatunnum og grenndargámum hafi áhrif á vilja íbúa til að flokka. Þá verða áhrif efnahagslegra og umhverfislegra hvata könnuð.