Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Skaftárhreppur skrifuðu á dögunum undir samning um tilraunaverkefni um snjallar úrgangslausnir. Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra og Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri, skrifuðu undir samninginn en verkefnið ber titilinn Skaftárhreppur og snjallar úrgangslausnir. Borgum fyrir það sem við hendum – tilraunaverkefni.
Um er að ræða framhald tilraunaverkefnis um úrgangsstjórnun í Skaftárhreppi sem unnið var á árunum 2020 og 2021 og verður verkefnið unnið í samstarfi Skaftárhrepps við ReSource International ehf.
Verkefnið felur í sér að Skaftárhreppur nýtir grenndarstöðvar sem settar eru upp í dreifbýli innan sveitarfélagsins til að taka til prófunar mismunandi útfærslur við innheimtu þjónustugjalda fyrir meðhöndlun þess úrgangs sem notendur skila á stöðvarnar.
Verkefnið er liður í innleiðingu á breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem felast m.a. í því að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs skuli vera sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, s.s. með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Í dag leggja flest sveitarfélög á fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs á hverja fasteignareiningu, óháð umfangi þeirrar þjónustu sem veitt er. Umræddar lagabreytingar taka gildi um næstu áramót.
Eitt af stóru verkefnunum
Markmið tilraunaverkefnisins er að leita lausna við innheimtu sem draga úr sóun og hvetja til aukinnar flokkunar úrgangs, einkum í dreifbýli.
„Úrgangsmál eru eitt af stóru verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir. Eitt gagnlegasta verkfærið til að ýta undir nauðsynlega framþróun í málaflokknum eru fjárhagslegir hvatar. Ef sveitarfélög innheimta raunkostnað fyrir þjónustu við meðhöndlun úrgangs hvetur það íbúa og stjórnendur fyrirtækja til að draga úr úrgangsmagni og til betri flokkunar. Í þessu felst þó grundvallarbreyting á innheimtukerfi flestra sveitarfélaga og það getur reynst áskorun. Ég legg því áherslu á að ríkið styðji við sveitarfélögin í þessu verkefni og bind vonir við að reynslan úr tilraunaverkefninu í Skaftárhreppi muni nýtast öðrum sveitarfélögum við innleiðingu þeirra breytinga sem framundan eru,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.