
Bláskógabyggð hefur endurnýjað samninga við björgunarsveitirnar tvær sem starfa innan sveitarfélagsins, Björgunarsveitina Ingunni og Björgunarsveit Biskupstungna.
Með samningunum eru framlög sveitarfélagsins til starfsemi félaganna aukin. Framlögin felast í rekstrarstyrk fyrir björgunarsveitirnar og ungmennastarf, framlögum fyrir tiltekin verkefni sem sveitirnar sinna, svo sem flugeldasýningar og umsjón með áramótabrennum, og styrk til reksturs fasteigna björgunarsveitanna á móti kostnaði þeirra af fasteignagjöldum og heitavatnsnotkun.
Þá er kveðið á um að þátttakendur á námskeiðum og æfingabúðum á vegum sveitanna fái frítt í sund þá daga sem viðburðir standa yfir, svo og félagsmenn sem koma úr lengri útköllum. Samningarnir gilda til ársloka 2021.
Með framlögum sínum vill Bláskógabyggð leggja áherslu á mikilvægi björgunarsveitanna sem viðbragðsaðila og það félags- og forvarnastarf sem sveitirnar sinna.
