Hjá Garðyrkjustöðinni Heiðarblóma á Stokkseyri fer nú í hönd annasamasti tími ársins. Samkomubannið hefur gert það að verkum að aldrei hefur verið meira að gera í moldarsölunni.
„Moldarsalan hefur gengið mjög vel. Í fyrra hófum við moldarsöluna þegar langt var liðið á maí en núna byrjuðum við 7. maí og kláraðist allt sem búið var að mala og átti að duga tvær vikur, á fimm dögum,“ segir Margrét Magnúsdóttir, hjá Heiðarblóma, í samtali við sunnlenska.is.
Margrét segir að núna sé aftur fáanleg mold hjá þeim og verður fram í júní þó að opnunartíminn í moldarsölunni verði ef til vill bara tveir dagar eftir miðjan júní.
Mikil ásókn í gróðurmoldina
„Við höfum verið í moldarsölu í mörg ár, en tvö ár í röð vorum við ekki með mold, og þá fyrst fundum við hve þörfin er mikil því síminn stoppaði ekki,“ segir Margrét en Heiðarblómi er eina stöðin á svæðinu sem selur gróðurmold.
„Í fyrra byrjuðum við svo aftur af fullum krafti með betri vélum til að vinna moldina. Vilhjálmur bróðir minn hefur alfarið séð um moldarvinnsluna þegar hann er í landi og svo erum við með ágætis vélamann okkur til aðstoðar sem hleypur í skarðið og mokar á kerrur.“
Sem fyrr segir hefur verið vitlaust að gera í moldarsölunni. „Ástæðan fyrir aukningunni er sjálfsagt að hluta til sú að í því ástandi sem ríkti í vetur og vor hefur fólk unnið í ýmsu sem áður vannst minni tími til, eins og til dæmis í garðinum,“ segir Margrét.
„Í fyrra varð algjör sprengja í plöntusölu í maí og júní. Það er sjálfsagt vegna þess hve veðrið var gott í fyrrasumar, en nú held ég að margir sem höfðu lítinn tíma áður í garðvinnu hafi fengið hann í covid ástandinu. Hvernig sumarið verður er erfitt að spá, en það er greinileg aukning í ýmsu sem lýtur að garðinum,“ segir Margrét.
Rósirnar sívinsælar
Aðspurð hvað séu vinsælustu blómin og plönturnar hjá Heiðarblóma segir Margrét að rósirnar séu vinsælastar eins og er. „Einnig eru ýmsir blómstrandi runnar og tré vinsælir. Af sumarblómunum er sólboðinn vinsælastur fyrst á vorin en þegar líður á eru skógarmalvan, aftanroðablómið og hengitóbakshornin vinsælust.“
Rótgróið fjölskyldufyrirtæki
Gróðrarstöðin Heiðarblómi var stofnuð á níunda áratug síðustu aldar af Magnúsi Gunnari Sigurjónssyni og Viktoríu Þorvaldsdóttur, foreldrum Margrétar. Faðir Margétar, sem er orðinn 87 ára, sér enn um ýmislegt í tengslum við Heiðarblóma, eins og til dæmis daglegt bókhald og segir Margrét ómetanlegt að geta leitað til hans í sambandi við ýmislegt, því hann hefur mikla reynslu. Móðir Margrétar lést 2007.
„Í fyrstu var eingöngu ræktun sumarblóma, matjurta og víðitegunda. Seinna jókst úrvalið af plöntum og einnig var farið út í moldarvinnsluna sökum mikillar eftirspurnar. Einnig þarf mikla mold í ræktunina.“
Mjög gefandi starf
„Í dag starfa ég hér og ein sumarstúlka. Moldarvinnsluna sér Vilhjálmur bróðir minn um. Í fjölskyldurekinni gróðrarstöð leggja margir hönd á plóginn, allir í fjölskyldunni hafa hjálpað þegar mikið liggur við og hafa bræður mínir ósjaldan þurft að taka til hendinni í smíðavinnu hér í stöðinni. Starfið er fjölbreytt, mikil útivera og endalaus hreyfing. Kyrrðin, fuglasöngurinn og að sjá fræ vaxa og verða að blómi eða tré er mjög gefandi,“ segir Margrét.
Það er margt sem Margréti finnst skemmtilegt við starfið. „Að sjá að kúnnahópurinn fer vaxandi og kemur alls staðar að af landinu, þegar fólk kann að meta framsýni og bjartsýni foreldra minna sem byggðu upp litla persónulega gróðrarstöð í sjávarþorpi þar sem var við erfið ræktunarskilyrði að etja. Mér finnst gefandi og mikil áskorun í því fólgin að viðhalda því merkilega starfi.“
„Þegar ég var í Garðyrkjuskólanum á sínum tíma, vann ég verkefni í
markaðsfræði sem snerist um uppbyggingu og markaðsetningu þessarar litlu gróðrarstöðvar. Þá grunaði mig ekki að ég mundi koma að því verkefni,“ segir Margrét.
„Árið 2005 fluttu ég og maðurinn minn á Selfoss, síðan hefur Heiðarblómi átt hug minn allan frá marsbyrjun og fram á haust, en yfir vetrartímann vinn ég á Viss, vinnu- og hæfingarstöð. Þar er líka gott og gefandi að vinna,“ segir Margrét að lokum.