Samningi um umhleðslustöð sagt upp

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að segja upp samningi við Sorpstöð Suðurlands um umhleðslustöð fyrir sorp á gámasvæði Árborgar.

Uppsagnarfresturinn er tólf mánuðir eða til 31. ágúst 2011.

Í greinargerð bæjarráðs kemur fram að ítrekaðar vanefndir hafi orðið á framkvæmd samningsins, þótt skammt sé liðið á samningstímann. Það geri sveitarfélaginu erfitt fyrir að segja ekki upp samningnum á þessari stundu þar sem uppsagnarfrestur er langur.

Kvartanir hafa borist frá íbúum vegna foks á rusli, lyktar, hávaða og aukningu á mávi. Flugmálastjórn lét m.a. loka annarri flugbraut Selfossflugvallar vegna vargfugls en umhleðslustöðin er við flugbrautina.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði, Eggert Valur Guðmundsson, greiddi atkvæði gegn tillögunni og sagði að starfsemi stöðvarinnar hafi gengið vel ef undan eru skilin tvö tilvik sem gerðust með stuttu millibili í júlí sl. Forsvarsmenn Sorpstöðvarinnar gripu þegar í stað til ráðstafana þegar þeim bárust kvartanir vegna þessa og ekki hefur verið bent á vanefndir eftir það.

„Fullyrðingar sjálfstæðismann um ítrekaðar vanefnir á framkvæmd samningsins eru furðulegar í ljósi þessa,“ segir Eggert og bætir við að ótækt sé að meirihlutinn í Árborg gangi svo hart fram gagnvar samstarfssveitarfélögum á Suðurlandi. „Það er ekki síður alvarlegt að úrræði sem sparar íbúum Árborgar verulegar fjárhæðir í sorphirðukostnaði skuli sæta hálfgerðum ofsóknum af hálfu meirihlutans í Árborg.“

Fyrri greinViltu starfa í björgunarsveit?
Næsta greinHK og Haukar með sigra