Ólafur Sigurjónsson í Forsæti í Flóa hefur kært nýgerðan samning Árborgar, Flóahrepps og Landsvirkjunar um öflun og sölu vatns til samgönguráðuneytisins.
Gerir Ólafur þá kröfu að sveitarstjórn Flóahrepps verði lýst vanhæf í málinu, samningurinn verði ómerktur og til vara að aðkoma Landsvirkjunar að samningnum hvað varðar Urriðafossvirkjun verði úrskurðuð ólögmæt.
Byggir hann kæruna á því að samkvæmt samningnum kosti Landsvirkjun framkvæmdir við vatnsveituna og hreppurinn eignist framlag Landsvirkjunar gegn því að samþykkja skipulag þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun samkvæmt samkomulagi sem hreppurnn og Landsvirkjun gerðu sumarið 2007.
Þann samning hafi samgönguráðherra úrskurðað að hluta til ólögmætan. Frá Samgönguráðuneytinu fengust þær upplýsingar að kæran hafi borist. Ráðuneytið vildi ekki fullyrða um áhrif kærumálsins á vatnsveituframkvæmdir, yfirleitt taki mánuði frekar en vikur að ljúka afgreiðslu slíkra kæra og niðurstaðan ein ráði hver áhrifin verða.