Samningur um eftirfylgni við verkáætlun Olweusarverkefnisins við Þorlák Helgason, ráðgjafa, hefur verið samþykktur af bæjarráði Hveragerðis.
Samningnum er ætlað að tryggja faglegan stuðning við skólastjórnendur, kennara og annað starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði. Með samningnum er tryggt að verkáætlun Olweusarverkefnisins verði fylgt eftir í Grunnskólanum í Hveragerði til samræmis við tillögur vinnuhóps um eineltismál og samþykktir bæjaryfirvalda.
Í samkomulaginu felast fjölmargir þættir sem skólinn vinnur að á skólaárinu og sem dæmi má nefna að eineltiskönnun mun verða lögð fyrir og niðurstöður hennar kynntar skólasamfélaginu.
Ráðgjöf verður veitt um aðgerðir með hliðsjón af niðurstöðum eineltiskönnunarinnar. Þorlákur mun hafa almenna umsjón og eftirlit með Olweusaráætluninni og einstökum þáttum hennar ásamt því að veita ráðgjöf til allra umsjónarkennara byggða á greiningu á aðstæðum nemenda í hverjum bekk.
Einnig verður unnið að gerð áætlunar um samstarf skóla og heimila til að auka velferð nemenda og skerpa á hlutverkum og ábyrgð varðandi forvarnarvinnu og við úrvinnslu eineltismála.