Í gær var undirritaður samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar, Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands um leigu tveggja síðarnefndu aðilanna á Sandvíkursetrinu á Selfossi.
Sandvíkursetrið, sem áður hýsti hluta af starfsemi Vallaskóla, verður nú fræðslusetur en auk þessara aðila munu Markaðsstofa Suðurlands, Fjölmennt, réttargæslumaður fyrir fatlaða á Suðurlandi, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Birta endurhæfing vera staðsett í húsnæðinu.
Samningurinn er til 10 ára en framkvæmdir við húsið standa nú yfir og því aðeins hluti þessara aðila komnir inn.
Stefnt er á að fyrsta framkvæmdaáfanga verði lokið seinna í haust svo allir séu komnir inn um áramót. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, sagði við undirritunina að sveitarfélagið muni leggja 100 milljónir króna í endurbætur á húsinu.