Orka náttúrunnar og Brunavarnir Árnessýslu hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um reglubundnar brunavarnaæfingar í virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum.
Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að mikilvægi samstarfsins hafi sýnt sig vel þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í vetur og samningurinn eflir líka almennar brunavarnir í nærsamfélagi virkjananna.
Það voru þeir Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri og Trausti Björgvinsson, forstöðumaður virkjanareksturs ON, sem skrifuðu undir samstarfssamninginn í Hellisheiðarvirkjun í morgun. Hann kveður á um að minnsta kosti tvær sameiginlegar æfingar í hvorri virkjun á ári.
„Þessar æfingar hafa svo sannarlega sannað gildi sitt þegar á hefur þurft að halda. Samstarf starfsmanna BÁ og ON hefur verið afskaplega farsælt þar sem allir hafa verið tilbúnir til þess að leggjast á eitt við að skapa öruggt umhverfi og sem skilvirkastar aðstæður til þess að bregðast við ef vá ber að höndum,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri.
Gildi samstarfsins sannaðist berlega þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í janúar síðastliðnum. Fumlaus viðbrögð og gott samstarf á vettvangi réðu því að betur fór en á horfðist, komið var í veg fyrir meira tjón en þó varð og áhrif á virkjanareksturinn voru lítil.