Í síðustu viku áttu forstjórar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) fund á Kirkjubæjarklaustri þar sem ræddir voru möguleikar á samstarfi á sviði heilbrigðisþjónustu með fjarlækningabúnaði í heilsugæslu í dreifðari byggðum landsins.
Á Kirkjubæjarklaustri hefur byggst upp mikilvæg þekking og reynsla í tengslum við teymisvinnu milli hjúkrunarfræðings og læknis við faglega úrlausn þeirra erinda sem sjúklingar leita til heilsugæslunnar með.
Á fundinum handsöluðu þau Herdís Gunnarsdóttir og Guðjón Hauksson samstarf milli HSU og HSA um innleiðingu á notkun fjarheilbrigðisþjónustubúnaðar í heilsugæslu hjá stofnunum auk möguleika á samvinnu á sviði sérhæfðari heilbrigðisþjónustu.
„Unnið verður samkvæmt verkefnaáætlun sem kynnt var heilbrigðisráðuneytinu í júní á þessu ári. Í fyrsta áfanga verkefnisins verður farið í áframhaldandi innleiðingu á notkun búnaðar til samskipta milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanna innan heilbrigðisumdæmanna tveggja á, annars vegar á Suðurlandi og hins vegar á Austurlandi. Nánari útfærsla á verkefninu verður kynnt samstarfsaðilum í byrjun nóvember og á með málþingi í upphafi næsta árs,“ segir í tilkynningu frá forstjórum stofnananna.
„Notagildi fjarheilbrigðisþjónustu er mikið við að stuðla að bættu aðgengi sjúklinga á landsbyggðinni að bæði almennri þjónustu heilsugæslulækna og annarra sérfræðilækna. Að auki tryggir þjónustan skjótari úrlausn, dregur úr kostnaði og óþarfa ferðarlögum sjúklinga og tryggir gæði og öryggi í þjónustu,“ segir ennfremur í tilkynningunni.