Samstöðufundur á Selfossi

Sunnlenskar konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund í Sigtúnsgarði á Selfossi, kl. 15:30 undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Þar mun Guðný Lára Gunnarsdóttir lesa upp sameiginlega yfirlýsingu Kvennafrís 2018, Sigríður Helga Steingrímsdóttir flytur ávarp sem fulltrúi ungra kvenna og Auður I. Ottesen flytur ávarp sem fulltrúi þeirra sem muna eftir kvennafrídeginum 1975.

Að lokum verður fjöldasöngur undir forsöng Berglindar Magnúsdóttur þar sem baráttulag dagsins, „Áfram stelpur“, verður sungið. Kvennakórar og aðrar söngelskar konur eru sérstaklega hvattar til að taka þátt.

„Síðastliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstrikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Nú er nóg komið, konur eiga að vera óhultar heima og óhultar í vinnu!

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið!

Nú reynir á samstöðumátt kvenna en ekki síður á samfélagið sjálft sem loksins, loksins hlýtur að geta sameinast um að breyta þessu. Hættum að breyta konum – breytum samfélaginu – til hins betra!“ segir í fréttatilkynningu frá fulltrúum Kvennafrís.

Fyrri greinFjórir slasaðir eftir árekstur í Ölfusinu
Næsta greinForeldrasýning og málþing „Lof mér að falla“