„Samtakamátturinn sannaðist í verki“

Pétur G. Markan bæjarstjóri var meðal þeirra sem mættu í kvöld til að laga og stækka regnbogafánann. Ljósmynd/Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Hópur fólks kom saman í Hveragerði fyrr í kvöld til að laga og stækka regnbogafánann á Skólamörk sem unnin voru skemmdarverk á í gær.

Regnbogafáninn var málaður á götuna í gær en í morgun blöstu við hatursorð í garð hinsegin fólks á nýmáluðum fánanum.

Brugðist var við skemmdarverkunum með því að laga fánann og stækka um leið og nær fáninn nú inn á aðalgötu bæjarins, Breiðumörkina. Er það í fyrsta sinn sem sú gata er máluð í regnbogalitunum.

Ljósmynd/Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

„Það var virkilega ánægjulegt hversu mörg mættu til að taka þátt í að laga fánann og stækka. Þetta var virkilega skemmtileg stund og samtakamátturinn sannaðist í verki,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, varaformaður bæjarráðs, í samtali við sunnlenska.is.

„Það voru í kringum 60 manns sem mættu og máluðu regnbogafánnan í kvöld. Það er gaman að ná þessum fjölda sérstaklega í ljósi þess að fyrirvarinn var stuttur.“

„Mig langar að þakka öllum sjálfboðaliðunum fyrir sitt framlag og sérstaklega vil ég þakka Eydísi Björk Guðmundsdóttur sem hefur átt frumkvæðið að þessari fallegu vinnu,“ segir Jóhanna að lokum.

Á fundi bæjarráðs í morgun var bókað að bæjarráð harmaði þau skemmdarverk sem gerð voru á regnbogafánanum. „Frelsi, virðing og mannréttindi er ekki sjálfgefinn hlutur heldur sístæð barátta, stöðug umræða og fræðsla. Viðbragð Hveragerðisbæjar verður að auka sýnileika regnbogafánans og stækka,“ segir í bókun bæjarráðs.

Fólk á öllum aldri lagði hönd á plóg. Ljósmynd/Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Um þrjár klukkustundir tók að fullgera regnbogagötuna í kvöld. Ljósmynd/Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Fyrri greinSelfoss kom til baka og jafnaði
Næsta greinEllefu kærðir fyrir hraðakstur