Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í dag að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá.
Meirihluti sveitarstjórnar telur framkvæmdina í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð og álit Skipulagsstofnunar og samþykkti að gefa út leyfið með skilyrðum varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun, frágang vegna framkvæmdarinnar og fleira. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipuð verði eftirlitsnefnd í samráði við framkvæmdaaðila og aðra leyfisveitendur.
Leyfisveitingin var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu en Gerður Stefánsdóttir greiddi atkvæði gegn veitingu framkvæmdaleyfisins og hafnaði rökstuðningi meirihlutans.
„Ég hafna því algerlega að áratugagamalt umhverfismat Núpsvirkjunar geti legið til grundvallar leyfisveitingu Hvammsvirkjunar, með alla þá vitneskju sem undanfarnir ártugir hafa fært okkur. […] Engin sjálfstæð rannsóknarvinna fór fram á vegum meirihlutans heldur kom flest allt beint frá Landsvirkjun, bæði drög og ráðgjöf. Landsvirkjun stendur ekki aðeins undir þriðjungi sveitarsjóðs, heldur er samkomulag frá 2008 dregið fram fyrr í mánuðinum og Landsvirkjun ætlar nú að gera upp gamlar skuldir samkvæmt því,“ segir Gerður í bókun sinni.
Í upphafi fundar lagði Gerður fram beiðni um frestun á afgreiðslu framkvæmdaleyfisins, að fordæmi Rangárþings ytra, þar sem málið hefði enn ekki komið á borð loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Tillögu Gerðar var hafnað af sveitarstjórn með fjórum atkvæðum.