Sandburðurinn kom hafnarstjóranum ekki á óvart

,,Ég væri ekki hissa ef Herjólfur sigldi hingað yfir vetrarmánuðina,“ segir Indriði Kristinsson, hafnarstjóri í Þorlákshöfn.

Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar í síðustu viku á meðan unnið var að dýpkun Landeyjahafnar. Indriði segir að ástandið í Landeyjahöfn hafi ekki komið sér á óvart en í Þorlákshöfn hefðu menn í gegnum tíðina orðið áþreifanlega varir við þann mikla sandburð sem er með ströndinni.

Indriði telur þó of snemmt að segja til um hvort Landeyjarhöfn yrði aðeins opin yfir sumar­mánuð­ina. Sem kunnugt er þá sagði Vega­gerðin upp samningi við Þorlákshöfn um siglingar Herjólfs þangað en í samningnum fólst að Herjólfur fengi verulegan afslátt af hafnargjöldum. Að sögn Indriða greiðir Herjólfur nú sömu gjöld og aðrir og engar viðræður hafa farið fram um nýjan samning.

Fyrri greinKeflvíkingar sprækari í kvöld
Næsta greinFéll af þaki sumarbústaðar