„Áhrif af uppsetningu sandfangarans virðast vera farin að skila sér bæði austan og vestan við Vík í Mýrdal því fjaran er á leiðinni út.“
Þetta segir Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar. Vinnu við sandfangarann í fjörunni við Vík er að ljúka og einungis frágangsvinna eftir sem lýkur á næstu vikum.
„Þessari aðferð hefur ekki verið beitt hérlendis áður við verja strandir en hún er vel þekkt erlendis,“ segir Sigurður Áss.
„Megintilgangurinn með sandfangaranum er að verja þorpið að vestanverðu.“ Að sögn Sigurðar Áss mun sandfangarinn ekki vera fullnægjandi vörn fyrir ströndina við Vík því einnig þurfi að bæta varnargarðana þar næstu árin. Ef ekki kemur til Kötluhlaups þá muni ströndin minnka smám saman áfram.
„Við síðasta Kötluhlaup byggðist upp tangi austan við Vík í Mýrdal og þá fór ströndin að hlaða upp á sig,“ segir Sigurður Áss.
„Tanginn eyddist hins vegar smám saman og kláraðist 1970 og þá fór ströndin að étast smám saman upp og er að verða eins og hún var fyrir gos.“
Heildarkostnaður við sandfangarann verður 180 til 190 milljónir króna en Verktakafélagið Glaumur hefur unnið verkið sem hófst snemma sumars.