Framkvæmdir við gerð sandfangara, sem er lagður í sjó fram útfrá fjörunni í Vík í Mýrdal, ganga vel.
Með sandfangaranum sem kemur beint út frá flóðvarnagarðinum sem byggður var 1994, er ætlað að takmarka sandburð austur með ströndinni. Gert er ráð fyrir því að garðurinn hafi þau áhrif að vestan hans muni fjaran og fjörukamburinn haldast í svipuðu formi og viðhalda sandströnd. Austan megin verði áhrif lítil.
Efnið í garðinn er tekið úr námum á Sólheimaheiði. Verður garðurinn um 300 metra langur.
Kostir þess að fara þessa leið er meðal annars þeir að sjónræn áhrif á ströndina séu lítil og muni ströndin áfram nýtast til útivistar.