Sandfangarinn í Vík hefur skilað góðum árangri í verndun gegn ágangi sjávar á ströndina í Vík. Þetta er mat Sigurðar Áss Grétarssonar á siglingasviði Vegagerðarinnar.
Ströndin lætur minna á sjá þar sem hafaldan nær ekki að ryðja sandi úr fjörunni. Engu að síður hefur fangarinn látið meira á sjá en talið var í fyrstu. „Það var alltaf ljóst að við þyrftum að halda honum við en vissulega hefur hann rýrnað meira enreiknaðvarmeð,“segir Sigurður Áss. Þrátt fyrir það segir hann að sandfangarinn skili sama hlutverki, þar sem grjótið sé til staðar. „En það verður vissulega sjónræn breyting, þótt virknin sé hin sama.“
Kostnaður við uppbyggingu hans var ríflega 200 milljónir króna. Ekki er gert ráð fyrir því á fjárhagsáætlun að ráðast í lagfæringar á garðinum að svo stöddu. Hinsvegar eru uppi áætlanir um byggingu annars sandfangara austar við þann sem nú er, og eftir því sem næst verður komist er gert ráð fyrir því á samgönguáætlun fyrir árið 2016.