Forseti Íslands afhenti verðlaun í netratleik Forvarnardagsins 2010 á Bessastöðum í gær. Nemendur úr Flúðaskóla og Vallaskóla voru meðal þriggja verðlaunahafa.
Þær Sandra Dögg Eggertsdóttir úr Flúðaskóla og Halldóra Íris Magnúsdóttir úr Vallaskóla á Selfossi unnu iPod Touch eins og Guðný Sif Gunnarsdóttir úr Árskóla Sauðarkróki.
Ratleikurinn var á vegum Bandalags íslenskra skáta, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands en þessi heildarsamtök íþrótta- og æskulýðsmála standa að Forvarnardeginum ásamt Embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Lyfjafyrirtækið Actavis er styrktaraðili verkefnisins og framkvæmd þess annast Rannsóknir og greining við Háskólann í Reykjavík.
Í ár var Forvarnardagurinn haldinn í fimmta sinn. Fólst hann í umræðum og verkefnavinnu um fíkniefni í níunda bekk grunnskóla landsins í samvinnu við forvarnarfulltrúa, kennara og skólastjórnendur. Markmið dagsins var að efla forvarnarstarf í skólum, hvetja unglinga til að draga sem lengst að neyta áfengis og annarra fíkniefna og að minna á að samvera með fjölskyldu og þátttaka í heilbrigðu félagsstarfi vegur þungt í baráttunni gegn fíkniefnum, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.