Sandur ógnar gróðri á Óseyrartanga

Mikið af sandi hefur borist upp úr fjörunni á Óseyrartanga og við Hlíðarvatn í Selvogi í sunnanstormunum í vetur og ógnar sandur nú gróðri á þessum svæðum.

Nýliðinn vetur hefur verið rysjóttur og iðulega mjög hvassar suðlægar áttir. Á Facebooksíðu Landgræðslunnar segir að ef fram heldur sem horfir megi einnig ætla að foksandur geti valdið alvarlegum skemmdum á ökutækjum.

Landgræðslan og Vegagerðin eru nú að kanna mögulegar aðgerðir, en ljóst er ekki verður dregið úr sandfoki nema gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Landgræðslan hefur lagt til að borinn verði áburður á nokkra tugi hektara hjá Óseyrartanganum, vestan við Hafið Bláa, og sömuleiðis á nokkra hektara við Hlíðarvatn. Ennfremur er brýnt að sá melgresi sem allra fyrst þar sem sandskaflarnir eru þykkastir.

Heildarstærð svæðisins sem þarf að græða upp er nokkrir tugir hektara.

Fyrri greinBlossa boðið í heimsókn á Hvolsvöll
Næsta greinOR veitir 14 milljónir króna til rannsókna á lífríki Þingvallavatns