Sandvíkurtjaldurinn er lentur

Sandvíkurtjaldurinn nærir sig í kvöldsólinni, sem er svo algeng í Sandvík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Sandvíkurtjaldurinn margfrægi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi lenti í Sandvík í dag og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur frá árinu 2007. Fyrstu árin var hann talsvert fyrr á ferðinni en síðustu ár hefur hann oftast lent um eða eftir 8. apríl. Í fyrra lenti hann 11. apríl.

Frændur Sandvíkurtjaldsins eru mættir fyrir nokkru bæði á Stokkseyri en hann ákvað í þetta skiptið að vera samferða sveitunga sínum í Stekkum. Tjaldar hafa millilent í Sandvík síðustu daga en það var ekki fyrr en í dag að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Annars hefur lifnað hressilega yfir fuglalífinu í Sandvík síðustu daga. Það heyrðist í lóunni í morgun og starrarnir eru að leita að hentugum stað fyrir hreiðurgerð. Álftir og gæsir hafa verið á ferðinni síðustu daga og svartþrösturinn er á sínum stað en hann hefur verið hér í allan vetur.

Fyrri greinArna Ír ráðin til SASS
Næsta greinKústurinn á lofti í Laugardalshöllinni