Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á íbúa Stóru-Sandvíkur að kvöldi 8. apríl síðastliðins, á 9 ára afmælisdegi sunnlenska.is.
Þá er það staðfest að veturinn er úti hér sunnanlands, en koma Sandvíkurtjaldsins margfræga hefur venjulega markað vorkomuna endanlega.
Nokkrir tjaldar höfðu sést fyrr á ferðinni í Stóru-Sandvík, enda túnin hér kjörin millilendingarstaður áður en haldið er ofar í sýsluna.
Komudagur Sandvíkurtjaldsins hefur verið skrásettur í rúman áratug og lengi vel var hann yfirleitt lentur fyrir 5. apríl. Síðustu ár hefur hann seinkað sér nokkuð og lent um eða eftir 8. apríl.
Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið fjörugt að undanförnu, hér er mikið af grágæsum, heiðagæsum og blesgæsum. Lóuhópar hafa haft viðkomu á síðustu dögum og hettumávurinn er sömuleiðis kominn í stórum stíl.
Nú má búast við að mófuglum muni fjölga hratt á Suðurlandi á næstu dögum en veðurspáin gerir ráð fyrir meðvindi frá Bretlandseyjum næstu daga.