Sandvíkurtjaldurinn er mættur

Sandvíkurtjaldurinn kominn í túnið í Stóru-Sandvík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Sandvíkurtjaldurinn margfrægi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi lenti í Sandvík í gær og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur frá árinu 2007. Fyrstu árin var hann talsvert fyrr á ferðinni en síðustu ár hefur hann oftast lent um eða eftir 8. apríl. Í fyrra lenti hann 3. apríl.

Frændur Sandvíkurtjaldsins eru mættir fyrir nokkru bæði á Selfoss og í uppsveitirnar ásamt því sem nágranni hans í Stekkum var lentur nokkrum dögum fyrr. Það var hins vegar ekki fyrr en í gærmorgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið með fjörugasta móti síðustu daga. Gæsahópar og helsingjar hafa sést hundruðum saman, ásamt álftapörum og hrossagaukurinn kom snemma í apríl. Þá eru skógarþrestirnir komnir úr skjóli eftir leiðinda norðanrok síðan fyrir páska. Svartþrestir hafa haldið til hér í allan vetur og starrarnir eru í gleði sinni að leita að hentugum stöðum í hreiðurgerð.

Fyrri greinLög Braga Valdimars og klassískar perlur á tónleikum Hreppamanna
Næsta greinTuttugu umsækjendur um starf markaðs- og kynningarfulltrúa