Tjaldaparið margfræga sem haldið hefur sig í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi síðustu ár lenti í Sandvík nú um helgina og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.
Nokkrir tjaldar hafa sést í Sandvík á liðnum dögum, enda túnin í Stóru-Sandvík kjörinn millilendingarstaður áður en haldið er ofar í sýsluna. Það var hins vegar ekki fyrr en í morgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.
Hann var ekki einn á ferð þetta árið því fyrsta lóan lenti í Sandvík í dag og syngur hún nú blíðlega fyrir utan glugga ritstjórnarskrifstofu sunnlenska.is. Hér eru einnig skógarþrestir og grágæsir á vappi og starahópur hefur verið í árlegri úttekt á þakskeggjum og öðrum glufum um helgina.
Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur í tæpan áratug. Frá árinu 2007 hefur Sandvíkurtjaldurinn lent á bilinu 30. mars til 11. apríl en yfirleitt í kringum 5. apríl. Hann er því nokkrum dögum seinna á ferðinni núna en vanalega enda hefur veðrið hér á klakanum ekki verið spennandi undanfarna daga.
Að venju tók sunnlenska.is viðtal við tjaldinn þegar hann var lentur og þar rekur hann meðal annars ævintýraför sína yfir hafið frá Bretlandseyjum til Íslands. Hér má hlusta á viðtalið.