Sápustöðin opnuð á Selfossi

Ný bílaþvottastöð, Sápustöðin, var opnuð í dag að Austurvegi 52 á Selfossi.

Það er Sigurður Sigurðarson sem rekur stöðina í félagi við bróður sinn Torfa Ragnar, og föður þeirra Sigurð Sigurjónsson.

Vélbúnaður stöðvarinnar kemur í heilu lagi frá Hollandi en bíleigendurnir þrífa bílana sjálfir eftir einföldu kerfi. Menn greiða fyrir ákveðið margar mínútur í sjálfsala og fá þá peninga í hendurnar þar sem hver peningur gildir í eina mínútu við þvottinn.

Þannig geta menn geymt peningana fyrir næstu ferð ef afgangur er eftir þvottinn. Hægt er að kaupa mismunandi langan þvott en meðalþvottur sem inniheldur tjöruhreinsi, sápuþvott og bón ætti ekki að taka meira en fimmtán mínútur. Stöðin er opin allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Sigurður segist lengi hafa beðið eftir því að geta opnað stöð sem þessa. „Ég er búinn að bíða eftir þessu í sex ár, síðan ég fékk bílprófið. Þetta er þjónusta sem hefur vantað hérna á Selfossi en þegar við duttum niður á þetta húsnæði var ekki spurning að kýla á þetta,“ sagði Sigurður í samtali við sunnlenska.is.

Hann verður á Sápustöðinni næstu daga og yfir páskana til að leiðbeina bíleigendum við þvottinn. Á næstunni verður komið upp aðstöðu til að þurrka bíla og ryksuga á stöðinni.

sapustodin1_020412gk_791549788.jpg
Sápustöðin er einföld í notkun og bíllinn verður skínandi hreinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinLögreglan gómaði mótorhjólamann á flótta
Næsta greinRóleg byrjun í Varmá