SASS tekur að sér skólaakstur fyrir FSu

Undanfarið hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, og Fjölbrautaskóli Suðurlands verið að kanna möguleika á því að samnýta núverandi almenningssamgöngur á Suðurlandi og skólaakstur FSu.

Niðurstaða þeirrar könnunar var sú að slík samnýting væri hagstæð fyrir báða aðila og myndi skila sér bæði í bættum almenningssamgöngum og betri þjónustu fyrir nemendur FSu. Þá væri slík samnýting fjárhagslega hagkvæm fyrir báða aðila. Í samræmi við þá niðurstöðu mun SASS taka að sér umsjón og rekstur skólaaksturs fyrir FSu samkvæmt samingi sem undirritaður var í dag og verður aksturinn hluti af almenningssamgöngukerfi SASS á Suðurlandi.

Allir nemendur FSu sem skráðir eru í skólaakstur fá fullan aðgang að almenningssamgöngum SASS á starfstíma skólans og gildir sá aðgangur einnig í skólafríum. Útbúið verður sérstakt aðgangskort fyrir hvern nemanda sem heimilar og skilgreinir þann aðgang.

Samningur þessi gerir ráð fyrir akstri að Fjölbrautaskóla Suðurlands frá Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri, Hellu, Hvolsvelli, Flúðum og Reykholti og til baka. Þær leiðir sem hafa verið hluti af skólaaksturskerfinu bætast við almenningssamgöngurnar og verða eknar allt árið en ekki aðeins á skólatíma.

Strætó bs. sinnir þjónustu- og upplýsingagjöf vegna akstursins í samræmi við núgildandi þjónustusamning Strætó bs. og SASS.

Aksturinn verður boðinn út og hefst hann við upphaf næsta skólaárs, haustið 2012. Samningurinn gildir til 31. desember 2018 með möguleika á framlengingu til tveggja ára.

Fyrri greinFundu lítilræði af kannabis hjá góðkunningja
Næsta greinHarður árekstur á Selfossi