SASS vill sjúkraþyrlu í loftið sem fyrst

Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur á loft frá Selfossflugvelli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldið var í lok október, var samþykkt ályktun þar sem ítrekað er við heilbrigðisráðherra að hefja hið fyrsta rekstur sérhæfðrar sjúkraþyrlu á Suðurlandi.

„Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þar sem sjúkraflutningum hefur fjölgað verulega m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Þá hafa breytingar á þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sömuleiðis leitt til þess að í fleiri tilfellum en áður þarf að flytja íbúa dreifbýlisins til Reykjavíkur ef alvarlega sjúkdóma eða slys ber að garði,“ segir í ályktuninni.

Skorað er á ráðherra að draga til baka hugmyndir um að staðsetja þyrluna á suðvesturhorni landsins þar sem slíkt leysir ekki vanda sjúkraflutninga á Suðurlandi m.a. vegna langra vegalengda í umdæminu og fjarlægðar frá Landspítalanum.

Fyrri greinMikið tjón þegar þak á geymsluhúsnæði hrundi
Næsta grein„Þetta er ánægjulegt fyrir okkur“