Lögreglan á Selfossi gerði upptæka rúma 170 lítra af landa á sveitabæ í Hrunamannahreppi snemma í morgun. Einn var handtekinn vegna málsins.
„Í lítrum talið þá er þetta mjög mikið magn af eimuðu áfengi sem við erum að ná þarna, en enginn gambri var á staðnum,“ sagði Svanur Kristinsson, lögregluvarðstjóri, í samtali við sunnlenska.is. Þar voru hins vegar 800 lítrar af ætluðum gambra en bruggunin á honum hafði mistekist og því mældist ekkert alkóhólmagn í honum.
Lögreglan komst á sporið í gær þegar hún hafði spurnir af manninum og heimsótti hann síðan í rauðabítið í morgun.
Ekki var neinn búnaður sem tengdist framleiðslunni á staðnum heldur hafði húsráðandi soðið landann í potti á eldavélahellu og honum hafði öllum verið tappað á líters eða hálfslíters flöskur undan gosdrykkjum sem voru tilbúnar til sölu.
Húsráðandinn var handtekinn og yfirheyrður og hefur hann viðurkennt að hafa staðið að framleiðslunni. Málið telst því upplýst.