Sauðburður í nóvember

Ærin Skessa kom eigendum sínum, Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Emil Ragnarssyni á Eyrarbakka, skemmtilega á óvart þegar hún bar tveimur lömbum í morgun.

Ingibjörg og Emil eru með nokkrar kindur í hesthúsahverfinu á Eyrarbakka og þegar þær voru teknar á hús þá tóku þau eftir því að Skessa var meiri um sig en venjulega.

„Það stóð til að slátra henni en hún framlengdi lífið um að minnsta kosti ár með þessu uppátæki. Hún átti að vera geld í vor en hefur greinilega komist í kynni við hrút einhversstaðar í sumar,“ sagði Ingibjörg í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta er skemmtileg tilbreyting svona í skammdeginu og lömbin, hrútur og gimbur, eru burðug,“ sagði Ingibjörg en lömbin njóta ylsins frá móður sinni – og hitaperu sem hengd hefur verið upp yfir stíunni.

Fyrri greinGullkistan fær stórgjöf
Næsta greinRör féll á fólksbíl