Fé var smalað af Þórsmörk í byrjun september og kom í ljós að fé hafði verið á beit víða á Mörkinni í sumar. Birki hefur breiðst mjög út á Þórsmörk, Goðalandi og nálægum afréttum meðan svæðið var beitarfriðað árin 1990 – 2011.
Í frétt á heimasíðu Skógræktarinnar segir að ljóst sé að verði fé sleppt inn á Almenninga verður að girða á ný til að beitarfriða Þórsmörk.
Þórsmörk var smöluð af starfsfólki Skógræktar ríkisins en nokkuð af fé var rekið þaðan og rann það allt norður yfir Þröngá á Almenninga, en Almenningar eru afréttur norðan Þórsmerkur þar sem Vestur-Eyfellingar ráku 45 lambær í sumar. Mikið traðk og skítur eftir fé var í Svínatungum sem eru nyrsti og austasti hluti Þórsmerkur, en einnig mátti sjá spor og uppétna hvönn víðar á Mörkinni. Sjá mátti nagaðan trjágróður á vissum svæðum. Sótti féð mest í verst grónu svæðin á Mörkinni þar sem nýgræðingur af birki og öðrum gróðri er að sá sér út.
Ekki er ljóst enn hvort framhald verður á upprekstri á Almenninga, en yfirítölunefnd er að störfum og mun úrskurða um hvort beit verður leyfð og þá hversu margar ær má reka á afréttinn.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að ef úrskurður yfirítölunefndar verður á þann veg að beit verður heimiluð á Almenningum sé ljóst að girða verður milli Almenninga og Þórsmerkur enda mun fé sækja inn á Mörkina. Þórsmörk og Goðaland voru girt af á árunum 1924-1927 og breiddust skógar mikið út í kjölfar þeirrar friðunar.
Eftir að Landgræðsla ríkisins náði samningum um friðun Almenninga við Vestur Eyfellinga árið 1990 var gamla girðingin tekin upp en ný girt frá Gígjökli út í Markarfljót. Áætlaður kostnaður við nýja girðingu milli Almenninga og Þórsmerkur er um 15 milljónir enda afar erfitt girðingarstæði þverskorið af giljum og jökulám. Verður kostnaður við slíka girðingu greiddur af almannafé.
Hreinn segir að mikið af nýgræðingi af birki hafi breiðst út í kjölfar beitarfriðunar Almenninga, en þeir voru beitarfriðaðir frá 1990 til 2011. Sjá má birki allt upp í rætur Rjúpnafells og langt upp í hlíðar hærri fjalla. Hæstu hríslurnar eru nú komnar í um 550 m hæð yfir sjávarmáli. „Ljóst er að þessi útbreiðsla mun halda áfram á næstu áratugum á öllu Merkursvæðinu, en hætt er við að hægi á þessari framvindu ef fé verður beitt á svæðið. Skógi vaxið land er mun betur í stakk búið að taka við áföllum, s.s. öskufalli og munu skógarnir draga mjög úr öskufoki í kjölfar eldgosa,“ segir Hreinn.