Sveitarfélagið Árborg hefur gengið frá kaupum á Miðjunni, um 8.400 fermetrum lands í miðbæ Selfoss, á 175 milljónir króna.
Það eru fyrirtækin Miðjan á Selfossi ehf. og Jöklar ehf. sem selja en sveitarfélaginu var gert tilboð um að kaupa landið í upphafi árs.
Að sögn Ástu Stefánsdóttur bæjarstjóra var talið heppilegast að ganga frá kaupum og fría bæinn um leið af hugsanlegri skaðabótakröfu. Sú krafa er tilkomin vegna þess að í fyrri samningum við Miðjuna hafði bærinn skuldbundið sig til að afhenda tiltekið byggingamagn á svæðinu. Eftir að athugasemdir íbúa höfðu borist var ljóst að bærinn gat ekki uppfyllt skuldbindingar um að afhenda þetta byggingamagn.
Formleg skaðabótakrafa hafði ekki verið lögð fram af hálfu eigenda Miðjunnar en að sögn Ástu hafði bæjarstjórn verið kynnt stefna upp á 531 milljón króna auk dráttarvaxta. Það var mat bæjarstjórnar að heppilegra væri að semja um kaup með þessum hætti og var þar stuðst við álit Sigurðar Sigurjónssonar bæjarlögmanns.