Tekjur Hveragerðisbæjar af bílastæðagjöldum við Árhólma numu rúmlega 17,2 milljónum króna frá byrjun maí til loka júlí í sumar. Ferðamenn sem ganga upp í Reykjadal leggja flestir bílnum sínum á bílastæðinu.
Fulltrúi D-listans í bæjarráði spurðist fyrir um tekjurnar á fundi ráðsins í gær og lagði til að upplýst yrði um tekjur hvers mánaðar á fyrsta bæjarráðsfundi hvers mánaðar.
Meirihlutinn sá ekki ástæðu til að skoða sérstaklega einn þátt í rekstri bæjarins á bæjarráðsfundi í hverjum mánuði en bendir á að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa aðgang að gögnum bæjarins og geta alltaf kallað eftir upplýsingum sem þörf er á að hverju sinni. Þá stendur jafnframt til að opna bókhald bæjarins og þar verði hægt að sjá þessa stöðu fyrir þá sem áhuga hafa.
Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsókn lagði til að yfirlit reksturs alls bæjarins verði lagt fyrir bæjarráð ársfjórðungslega. Einnig að ársuppgjör reksturs bæjarfélagsins þegar nýr meirihluti tekur við liggi fyrir næsta bæjarráðsfund, svo hægt sé að glöggva sig á stöðu við stjórnarskiptin.