Sautján umferðaróhöpp í dagbók lögreglunnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti fjóra slasaða á Selfossflugvöll eftir árekstur við Sléttaland. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sautján umferðaróhöpp voru skráð í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Í flestum tilvikum voru meiðsli minniháttar.

Alvarlegustu slysin voru á Suðurlandsvegi við Sléttaland þann 4. nóvember þegar tveir jepplingar lentu í árekstri. Fjórir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús en meiðsli fólksins voru ekki lífshættuleg.

Daginn eftir varð árekstur jepplings og vörubíls á þjóðvegi 1 skammt frá Steinavötnum. Jepplingurinn virðist hafa flotið upp í krapa svo að hann lenti framan á vörubílnum. Framhjól rifnaði undan vörubílnum og jepplingurinn gjöreyðilagðist. Tveir voru í jepplingnum en einn í vörubílnum og voru allir fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík. Meiðsli þeirra reyndust hinsvegar mun minni en útlit var fyrir í upphafi.

Fyrri grein„Heilsueflandi áhrif kakóbaunarinnar eru ótvíræð“
Næsta greinÖlvaður í árekstri á Selfossi