Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, segir að athugasemdir Mennta- og Menningarmálaráðuneytisins um námsumhverfi í nýjum Stekkjaskóla á Selfossi veki mikla furðu.
Ráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins um flutning barns úr Sunnulækjarskóla yfir í Stekkjaskóla en í úrskurðinum var það sérstaklega tekið fram að það væri vafa undirorpið hvort það námsumhverfi sem börnum verði boðið uppá í Stekkjaskóla væri í takt við lög um grunnskóla. Skólastarf mun hefjast þar í haust í bráðabirgðahúsnæði en nú er unnið að því að setja upp færanlegar kennslustofur á lóðinni.
Gísli Halldór segir að athugasemd ráðuneytisins um námsumhverfið veki mikla furðu enda hafi útboðsgögnin sem unnið var eftir öll verið miðuð við þarfir skólastarfs og þau lög og reglur sem um það gilda.
„Ráðuneytið óskaði engra sérstakra viðbótarupplýsinga um húsnæði eða skólalóð eftir upphafleg svör Árborgar vegna málsins í mars. Þar kom fram að unnið væri á grunni vandaðrar lýsingar útboðsgagna á því hvernig húsnæðið skal tilbúið til notkunar í haust þegar kennsla hefst,“ segir Gísli Halldór og bætir við að í svari Árborgar hafi einnig komið fram að ekkert tilefni væri til annars en að ætla að allar þær áætlanir stæðust.
„Þarna verður til staðar fullbúið skólahúsnæði sem mætir þeim kröfum sem gerðar eru til þess, og lóð og aðkoma sem uppfylla þær kröfur sem eðlilegt er að gera. Ráðuneytið hefur engar forsendur til þess að fullyrða að þessar áætlanir gangi ekki eftir. Það er einnig mat sveitarfélagsins að ekki verði um óviðunandi stöðu að ræða hvað varðar akstur með skólabíl í tiltekna tíma, s.s. íþróttir, sund og mögulega frístund. Slíkt fyrirkomulag er nú þegar til staðar í Árborg, nemendum Sunnulækjarskóla er t.d. ekið í sund og elstu bekkjum í BES er ekið í sund og íþróttir,“ sagði Gísli ennfremur.