Sveitarstjórn Hrunamannahrepps telur að nauðsynlegt sé að kynna betur þau áhrif sem Hrútmúlavirkjun í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi gæti haft í Hrunamannahreppi áður en frekari ákvarðandir verða teknar um framkvæmdina.
Fyrir síðasta fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps lágu boð frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um þáttöku í samráði um flokkun vindorkuvera.
Í ályktun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps segir að ljóst sé að fjölmörg álitaefni séu uppi varðandi Hrútmúlavirkjun en í Skáldabúðum er til skoðunar að reisa vindorkuver með allt að 22 vindmyllum.
„Virkjunarkosturinn er í öðru sæti varðandi þá virkjunarkosti sem mest áhrif munu hafa á ferðamennsku og útivist og mest áhrif allra kostanna á fuglalíf svo dæmi sé tekið. Faghópar sem unnu flokkunina telja að flest áhrif þessa virkjunarkosts séu neikvæð og gera þeir jafnfram athugasemdir við að áformin hafi ekki verið kynnt og fengið betri umfjöllun í nærumhverfinu,“ segir í ályktun sveitarstjórnar, sem telur að víðtækara samráð verði að eiga sér stað áður en að vindorkuver yrði leyft á þessum stað.
„Sveitarstjórn telur að sérstaklega eigi samtalið að eiga sér stað við Hrunamenn, þar sem áhrifa vindorkuversins muni ekki síst gæta í Hrunamannahreppi,“ segir að lokum í ályktuninni.