Ekki er víst hvernig brugðist verður við ábendingum félagsþjónustusviðs Sveitarfélagsins Árborgar um styttingu á opnunartíma leikskóla og skólavistunar í bæjarfélaginu, en sviðið lagði fram athugasemdir um breytinguna á fundi bæjarráðs nýverið.
Í bréfi sem sex sérfræðingar á félagsþjónustusviði sendu bæjarráði, segir að ljóst sé að skerðing á þjónustu við barnafjölskyldur komi einkanlega illa við láglaunafólk, sem vinnur oft lengur á daginn, og einstæða foreldra. Um er að ræða styttingu á opnunartíma um hálftíma og upp í 45 mínútur.
Segir í bréfinu að nú þegar hafi foreldrar tíu barna leitað til þjónustusviðsins vegna breytinganna og hafa lýst áhyggjum sínum, vanlíðan og kvíða. Segir að dæmi séu um að einstaklingar hafi sagt upp störfum sínum, þar sem þeir geti ekki sinnt vinnutíma sínum eftir að breytingarnar tóku gildi, sem var þann 1. febrúar sl.
Þar kemur fram að einhverjir þeirra eigi rétt á fjárhagsaðstoð og muni nýta sér þann rétt. Þannig sé þegar ein slík umsókn á borði félagsþjónustunnar. Í því felst að sveitarfélagið megi búast við auknum útgjöldum.
Að mati sérfræðinganna er ljóst að frekari samfélagslegar breytingar þurfi að eiga sér stað samhliða slíkri þjónustuskerðingu. Til að mynda viðhorf til vinnutíma foreldra og gæðatíma fjölskyldunnar, líkt og segir í bréfi sérfræðinganna. Í niðurlagi bréfsins segir að ljóst sé að þessar aðgerðir muni fyrst og fremst bitna á börnum sem þurfa jafnvel í ljósi aðstæðna að leita stuðnings og eftirlits hjá öðrum en fjölskyldu.
„Þetta er hluti af sparnaðaraðgerðum sveitarfélagsins og tillögur komu fram í kjölfar hagræðingarkröfu á fræðslusvið,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í samtali við Sunnlenska.
Hún segir óvíst hver viðbröðg yfirvalda verði. Fleiri sveitarfélög hafi farið í viðlíka breytingar, og hafi ekki bakkað með þá ákvörðun. „En það kann að vera misjafnt eftir því hvernig samfélagið er samsett,“ segir Ásta.