Segja RARIK og Landsnet sýna vítavert skeytingarleysi

Séð yfir Vík í Mýrdal í austur af Reynisfjalli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps krefst þess að RARIK og Landsnet tryggi varanlegt varaafl fyrir Mýrdalinn, þar til lokið hefur verið við nauðsynlegar úrbætur á dreifikerfinu.

Þetta kemur fram í bréfi sem Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri, sendi fyrir hönd sveitarstjórnar til forstjóra RARIK og Landsnets fyrr í vikunni.

Sveitarstjórnin segir að með aðgerðarleysi árum saman hafi RARIK og Landsnet sýnt vítavert skeytingarleysi gagnvart öryggi samfélagsins og eðlilegum lífsgæðum á 21. öldinni.

Þegar bréfið var ritað síðastliðinn mánudag þá hafði verið rafmagnslaust í 12 klukkustundir í Mýrdalshreppi eftir að bilun varð í Víkurstreng vegna vatnavaxta í Skógá.

Til viðbótar krefst sveitarstjórnin þess að nú þegar fari af stað stefnumótun um úrbætur á dreifikerfinu fyrir svæðið til þess að tryggja að hægt sé að halda úti eðlilegri starfsemi.

Fögur fyrirheit í langan tíma
Rafmagnsleysið í byrjun vikunnar er í annað skiptið á stuttum tíma sem íbúar, fyrirtæki og ferðamenn hafa þurft að þola langvarandi rafmagnsleysi á svæðinu. Í byrjun september varð samskonar bilun við Jökulsá til þess að rafmagn fór af svæðinu í langan tíma.

„Þrátt fyrir fögur fyrirheit RARIK í langan tíma um að verið sé að koma upp varaafli í Vík sem geti tekið við þegar svona atburðir gerast þá hefur það engu skilað. Viðbragð RARIK og Landsnets tekur langan tíma og á meðan þarf að skerða skólastarf, fyrirtæki verða fyrir umfangsmiklu fjárhagstjóni og allir þeir ferðamenn sem eru á svæðinu geta ekki sótt sér þá þjónustu sem þeir þurfa,“ segir í áskorun sveitarstjórnar.

Eðlilega sé ekki hægt að kenna opinberum stofnunum um náttúruhamfarir eða slæm veður. Það sé hins vegar fullkomlega eðlileg krafa þeirra sem reiða sig á þjónustu þeirra að þeir taki mið af aðstæðum á svæðinu og geri sitt besta til þess að tryggja eins vel og hægt er að bregðast megi við þegar slíkir atburðir verða.

Mjög fljótt kalt í öllum húsum
„Árum saman hefur sveitarfélagið bent á að ástandið sé óviðunandi og að kerfið anni ekki þeirri uppbyggingu sem hér hefur orðið. Svæðið reiðir sig alfarið á rafmagn til kyndingar húsa þannig að fyrir utan öll þau óþægindi og óöryggi sem fylgir rafmagnsleysi þá verður mjög fljótt kalt í öllum húsum. Þrátt fyrir ítrekuð áköll um að gert sé ráð fyrir varaafli á fjarskiptasenda þá er staðan ennþá sú að þeir detta út og öll fjarskipti liggja því niðri á stóru svæði. Starfsemi hjúkrunarheimilis og heilsugæslu, sem er beinlínis lífsnauðsynlegt að halda úti, hefur að sama skapi þurft búa við rafmagnsleysi og þannig hefur öryggi allra sem reiða sig á hana verið alvarlega ógnað,“ segir ennfremur í áskoruninni.

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps mun í framhaldinu óska eftir fundi með fulltrúum beggja fyrirtækja til að ræða stöðuna og framtíðarlausnir.

Fyrri greinSíðasti upplesturinn á þessari aðventu
Næsta greinJólasveinarnir koma á Selfoss