Alda Pálsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson, bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði, segja að viðsnúningur nýs bæjarstjórnarmeirihluta í málefnum Hamarshallarinnar sé með hreinum ólíkindum og ekki nema von að fólk og félagasamtök spyrji hvaða leikur hafi verið í gangi í aðdraganda kosninganna í Hveragerði.
„Var gagnrýni á Hamarshöllina eingöngu sett fram til að slá ryki í augu kjósenda og til að þyrla upp moldviðri í eigin þágu með það að markmiði að vinna kosningar?,“ spyrja Alda og Friðrik í fréttatilkynningu sem þau sendu frá sér í dag.
„Skyndilega er það orðið afar slæmt að pöntun á dúk sé í byrjunarfasa og ekki sé búið að klára samningagerð þannig að hægt sé að byggja upp Hamarshöllina að nýju strax í haust. Þessi málflutningur er með öllu óskiljanlegur enda í engu samræmi við það sem þessir sömu aðilar sögðu fyrir kosningar,“ segja Alda og Friðrik.
Mikill hiti í umræðunni
Í tilkynningu sem fulltrúar O-listans og B-listans sendu frá sér í gær kemur fram að nýr dúkur fyrir Hamarshöllina hafi ekki verið pantaður og aldrei gerður samningur um slíkt, þrátt fyrir að Aldís Hafsteinsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri hafi sagst hafa undirritað samning við framleiðandann Duol í apríl samkvæmt ákvörðun fyrrum meirihluta D-listans.
„Það var öllum ljóst að O-listinn og Framsókn voru mjög á móti loftborna íþróttahúsinu okkar og að það væri ekki með þeirra vilja að Hamarshöllin yrði endurreist,“ segja Alda og Friðrik en skrifað hafi verið undir tilboð og það sent til Duol þann 26. apríl. Fyrirtækið setti vinnu af stað í kjölfarið en þá átti eftir að ganga frá endanlegum samningi. Skömmu síðar fór í gang undirskriftasöfnun meðal íbúa og mikill hiti var í umræðunni en íbúafundur var haldinn örfáum dögum fyrir kjördag. Að sögn Öldu og Friðriks gat engum gat dulist hversu mjög fulltrúar O-listans og Framsóknar voru á móti kaupum á nýjum dúk og endurreisn Hamarshallarinnar. Því taldi þáverandi meirihluti ráðlegast að bíða með að undirrita samninginn þar til niðurstaða kosninga lægi fyrir.
Afleiðing ákvörðunarfælni nýja meirihlutans
„Ef að D-listinn hefði unnið kosningarnar hefði samningur þegar í stað verið undirritaður en ef að þáverandi minnihluti bæri sigur úr býtum væri hann með öllu óbundinn af fyrri ákvörðun og gæti þegar í stað sett í gang vinnu við aðrar lausnir sem þau hafa haft hugmyndir um. Þetta myndu einhverjir kalla að hlustað væri á raddir íbúa og að tekið hefði verið tillit til þeirra sjónarmiða sem hvað háværust voru í umræðunni,“ segja þau Alda og Friðrik og bæta við að nýi meirihlutinn véfengi ennþá skýrslu Verkís um valkosti sem bæjarstjórn hafði eftir að dúkur Hamarshallarinnar rifnaði og nú muni koma í ljós hvort rétt sé að meirihlutinn geti leyst aðstöðu til íþróttaiðkunar í Hveragerði með öðrum hætti.
„Sá hópur sigraði kosningarnar og þarf nú að takast á við afleiðingar þess að hafa gert úlfalda úr mýflugu í málinu og þar með mögulega komið í veg fyrir að íþróttir verði stundaðar í Hveragerði með þeim hætti sem við höfum vanist undanfarin ár. Þessi staða er ekki afleiðing þess að samningur var ekki undirritaður fyrir kosningar. Þessi staða er afleiðing ákvörðunarfælni fulltrúa O-listans og Framsóknar og andstöðu þeirra við nýtt loftborið íþróttahús – um það verður ekki deilt,“ segja þau Alda og Friðrik að lokum.