Í liðinni viku voru 58 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Flestir þeirra greiddu sekt sína á vettvangi en heildarálagning sekta vegna þessara brota nam rúmlega 2,7 milljónum króna.
25% afsláttur er veittur af sektum vegna þessara mála sé sekt greidd innan 30 daga og því nema tekjur ríkissjóðs af þessum sektum þegar öllum málunum er lokið um 2 milljónum króna. Flestar eru sektirnar að upphæð 50.000 krónur en níu ökumenn voru sektaðir um 70.000 krónur.
Í dagbók lögreglunnar er bent á að hægt er að komast með flugi til flestra borga Evrópu fyrir svipaðar upphæðir.
Lögregla mun halda þessu eftirliti áfram en meginmarkmiðið með því er að allir komist heilir heim. Hraðakstur er meðverkandi þáttur í lang flestum umferðarslysum á þjóðvegum landsins.
Fimm ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis í liðinni viku. Einn þeirra var próflaus, enda ekki orðinn 17 ára en hann ók útaf vegi innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Ekki urðu slys á fólki. Fjórir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.