Seldu 14 þúsund bollur á bolludaginn

Wiktoria Miska og Monika Cierpiatowska, starfsstúlkur hjá Almari bakara á Selfossi. Hægt var að fá bollur með 50% afslætti hjá Almari bakara í dag. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Almar bakari sló nýtt sölumet í gær en bakaríið seldi alls 14.000 bollur á bolludaginn. Bakaríi Almars eru í Hveragerði, á Selfossi og Hellu.

„Vinsælasta bollan hjá okkur er þessi klassíska – vatnsdeigsbolla með rjóma, sultu og glassúr. Gerdeigsbollan er nánast að deyja út. Við erum með vínarbrauðsbollu sem er geirdeigsbolla. Hún er góð en ekki nærri því jafn vinsæl og vatnsdeigsbollurnar. Vatnsdeigsbollurnar eru alveg 95% af allri sölunni,“ segir Almar Þór Þorgeirsson, hjá Almari bakara, í samtali við sunnlenska.is.

Bolludagurinn táknrænn fyrir bjartari tíma
En hvers vegna ætli bollan sé svona vinsæl hjá fólki? „Bollan er bara svo góð. Fólk kemur daglega í jafnvel heila viku og kaupir bollu. Sumir kaupa bæði fyrri partinn og seinni partinn. Aðrir fara jafnvel í mörg bakarí. Ég veit að margir væru til í að hafa bollur í heilan mánuð.“

Almar segir að bolludagurinn marki upphafið að bjartari tímum hjá bökurum eftir rólegan janúarmánuð. „Janúar er erfiður og leiðinlegur mánuður. Fyrir okkur bakarana er þetta upphafið hjá okkur. Erfiðasti mánuðurinn er búinn og allt á uppleið og sumarið að koma,“ segir Almar glaður í bragði og bætir því við að hann sé nú þegar farinn að spá í næsta bolludegi og þær nýjungar sem hann ætlar að vera með þá en vill þó ekki gefa neitt upp strax.

Þakklátur fyrir frábært starfsfólk
Almar segir að bolludagurinn og dagarnir á undan séu í raun eins og árshátíð hjá bökurum. „Þetta er alltaf stærsta helgin hjá okkur. En það er ekkert verið að slá slöku við eftir bolludaginn því svo kemur Valentínusardagurinn og konudagurinn. Við erum farin að undirbúa konudagstertuna og sú helgi er líka alltaf stór hjá okkur svo að það er bara áfram gakk.“

„Ég er mjög þakklátur fyrir frábært starfsfólk, það stóðu sig allir eins og hetjur. Allir bakararnir okkar voru að vinna um helgina og afgreiðslufólkið tók líka aukavaktir. Þrátt fyrir sölumet þá gekk þetta allt mjög vel og það er mínu góðu starfsfólki að þakka. Ég gæti þetta ekki án þeirra,“ segir Almar að lokum.

Fyrri greinGuðjóna ráðin framkvæmdastjóri Hamars
Næsta greinSprengidagsveisla í Þorlákshöfn