Seldu húsið sitt til að opna staðinn

Guðný og Árni fyrir utan Fröken Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fröken Selfoss er nýr og glæsilegur veitingastaður í miðbæ Selfoss. Með opnun staðarins eru nú öll rými í fyrsta áfanga í nýja miðbænum fullskipuð.

Eigendur Fröken Selfoss eru hjónin Guðný Sif Jóhannsdóttir og Árni Bergþór Hafdal Bjarnason. Blaðamaður sunnlenska.is hitti ungu og glaðlegu hjónin þar sem þau voru að taka límmiðann af útidyrahurðinni á staðnum og opna um leið dyrnar fyrir fólki.

„Við ætluðum upphaflega að opna í sumar en svo dróst það aðeins á langinn. Það er ár síðan við vorum alveg ákveðin í þessu og það er búið að taka ár að undirbúa húsnæðið. Svo tók við löng sala á húsi en við seldum húsið okkar til að opna þennan stað – það hvarf fljótt,“ segja þau og hlæja. Það má því með sanni segja að Fröken Selfoss sé mikil fjárfesting fyrir ungu hjónin.

Girnilegir smáréttir voru í boði við opnunina sunnlenska.is/Jóhanna SH

„Þetta er stemningstaður. Þetta eru smáréttir og kokteilar. Fólk kemur hingað með vinum sínum til að sletta úr klaufunum og hafa gaman,“ segir Guðný og Árni skýtur inn að markhópurinn sé ekki sjötíu plús. „Amma og afi fá kannski svolítið illt í eyrunum yfir háværri tónlist, en þau eru auðvitað velkomin hingað líka að borða“ segir Guðný.

Fröken Selfoss verður opið alla daginn, eldhúsið er opið frá hálf tólf til níu og barinn lengur. „Við ætlum að vera gjörn á happy hour, vera með kokteila eftir tíu og tveir fyrir einn tilboð. Við ætlum gera svolítið út á tilboðin en við viljum að lókallinn borði á skikkanlegu verði. Þetta verður ekki ódýr staður en við ætlum samt að halda í heimafólkið með því að vera með góð tilboð. Við verðum bara með fastan seðil í gangi fram yfir helgina, annaðhvort fjögurra rétta seðil eða sjö rétta seðil, sem er einnig hægt að fá vegan,“ segir Árni.

Skúli Már og Guðjón voru ánægðir með nýja staðinn. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Auðveldara að finna nafn á börnin
Aðspurð út í nafnið, Fröken Selfoss, segja þau að það hafi verið erfið fæðing. „Að finna nafn á staðinn var erfiðara en að finna nafn á börnin okkar,“ segir Guðný og þau hlæja bæði dátt. „Þetta er uppástunga sem kom frá hönnuðinum okkar, Leif Welding og það bara festist. Við byggðum svolítið konseptið í kringum nafnið,“ segir Árni og Guðný bætir við að þetta eigi að vera svolítið kvenlægur staður. „Staðurinn höfðar vel til kvenna og vinkonuhópa,“ segir Guðný.

Góð viðbót við flóruna
Fröken Selfoss er þriðji staðurinn sem Guðný og Árni opna en þau reka einnig Samúelsson Matbar og ísbúðina Groovís, sem eru einnig í miðbænum á Selfossi. „Tækifærið bauðst til að opna þennan stað og okkur fannst þetta vera eðlileg þróun úr mathallareldhúsi – að komast í aðeins stærra húsnæði,“ segir Árni og Guðný bætir við að þau vildu bæta við flóruna hjá sér og ákváðu því að stökkva á þetta tækifæri þegar það bauðst. 

Auk þess að reka nú þrjá staði þá eiga þau Guðný og Árni tvö ung börn svo að það er meira en nóg að gera hjá þeim. „Þetta er púsluspil en þetta gengur sem betur fer bara vel.“

Óhefðbundir kokteilar eru í boði á Fröken Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Vígðu staðinn með brúðkaupsveislunni sinni
Þær eru margar gleðistundirnar hjá hjónunum en þau giftu sig um síðustu helgi. „Það er mikill léttir að vera loksins búin að opna. Við opnuðum með pompi og prakt um síðustu helgi þar sem við giftum okkur hér inni. Þá var þetta ekki orðið svona flott, en þetta var orðið flott,“ segir Árni. 

Sem fyrr segir þá sá Leifur Welding um hönnun staðarins og var það einróma álit fólks sem mætti í opnunarteitið að honum hafi tekist ákaflega vel til í alla staði. 

„Leifur hannaði meðal annars Apótekið, Fjallkonuna, Tres Locos og alla þessa flottu staði í Reykjavík. Við vissum að hann hefði hannað þessa flottu staði og fengum hann þess vegna til þess að hanna staðinn fyrir okkur, því að þetta var einmitt tilfinningin sem við vildum hafa á Fröken Selfoss,“ segir Guðný og það er augljóst að þau vita hvað þau eru að gera og hvað það er sem virkar.

María Katrín, Gestur og Guðni voru viðstödd opnunina. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Guðný er menntaður sjúkraliði og Árni er matreiðslumeistari en hvað verður til þess að ung hjón með tvö lítil börn ákveða að opna þrjá staði á ekki lengri tíma en þetta? „Þetta er bara metnaðarmál og svo bara neyðin kennir naktri konu að spinna og allt það. Samúelsson Matbar var ekki að fúnkera einn og sér en vegna þess að það leið svo langur tími þar til við náðum að selja húsið þá opnuðum við Groovís í millitíðinni,“ segir Árni.

„Við ætluðum að fara í tvær vikur í frí austur til tengdaforeldra minna en sáum þá að það var búið að loka ísbúðinni í miðbænum og Árni hafði samband við Vigni og við komumst þá að því að Kjörís væri með þennan stað á leigu, þannig að það yrði að vera ísbúð í húsnæðinu. Þannig við vorum bara „búum til ísbúð!“ Svo að fríið okkar fór í það að búa til ísbúð“ segir Guðný og hlær.

En hvað sagði fjölskyldan þegar þau ákváðu að opna þriðja staðinn? „Þau spurðu okkur hvort þetta væri ekki komið gott. En þetta er ekki komið gott – við erum ekki hætt,“ segja þau og hlæja bæði dátt.

Fjóla, Hafdís, Valdimar og Leó skáluðu með gestum í opnunarhófinu. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Groovís fyrir fullorðna
Árni bætir við að þau séu með öfluga veisluþjónustu, að það sé partur af þessu líka. „Við vorum með veisluþjónustu úr Samúelsson, sem er frekar lítið eldhús. Með því að vera með þrjá staði sem allir sameinast í eina veisluþjónustu þá getum við gert miklu meira. Við erum líka núna komin með stærra eldhús sem munar heilmiklu fyrir okkur,“ segir Árni.

„Við viljum búa til góðan miðbæ og góðan stað til að vera á. Fólk er voða gjarnt á að tala um að það vanti þetta og vanti hitt en það er enginn sem gerir neitt. Það vantar fólkið sem gerir. Fólk þarf líka að taka þátt – mæta á staðina. Við erum ekki hefðbundin, við erum ekki að gera út á hefðbundna kokteila, við erum svolítið flippuð. Við erum svolítið Groovís fyrir fullorðna. Krakkarnir fara á Groovís og mamma og pabbi koma hingað,“ segir Guðný kát að lokum.

Hægt er að bóka borð hér.

Instagram-síða Fröken Selfoss

Árni og Guðný ávarpa gesti við opnunina. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinDýraríkið flytur í stærra og betra húsnæði
Næsta greinBergrós til Arezzo á Ítalíu