Selflutningar að hefjast yfir Múlakvísl

Sett verður vað á Múlakvísl og aðstaða til að selflytja bíla og fólk yfir ána. Stefnt er að því að selflutningarnir hefjist síðdegis í dag.

Tvær sérútbúnar vörubifreiðir og langferðabifreið munu verða í flutningum yfir Múlakvísl. Björgunarsveitarmenn og lögreglan munu fylgjast með þessum ferðum og vakta svæðið. Selflutningarnir munu standa yfir frá klukkan 8 á morgnana til klukkan 16 daglega.

Almannavarnir funduðu með aðilum í ferðaþjónustunni í dag og var farið yfir atburði síðustu daga og afleiðingar hlaupsins í Múlakvísl. Áhersla var lögð á að koma á vegasambandi á þjóðvegi 1 við Múlakvísl.

Fulltrúar frá Vegagerðinni undirbúa nú bráðabirgðabrú og er sú vinna í fullum gangi. Þá er verið að bæta veginn um Fjallabak nyrðri og verður vegurinn heflaður og leiðin gerð eins greiðfær og hægt er fyrir jeppa og stærri bíla, en leiðin er ekki fær fólksbílum. Mikilvægt er að virða hámarkshraða.

Einnig vinnur Vegagerðin að því að bæta allar merkingar, sérstaklega með erlenda ferðamenn í huga. Þá mun Vegagerðin efla vefsíðu sína á ensku og íslensku um ástand vega á svæðinu, og verður hún uppfærð reglulega. Vefsíðan www.island.is verður einnig með uppfærðar upplýsingar.

Bílaleigur hafa sett upp nýjar skiptistöðvar í umdæminu til að auðvelda ferðamönnum að komast leiðar sinnar. Almannavarnir, Vegagerðin, Ferðamálastofa munu hitta ferðaþjónustuaðila í Vík á fundi klukkan 17:00 og á Klaustri klukkan 21:00 og fara yfir stöðuna.

Vísindamenn flugu yfir jökulinn í dag og þar eru engar sjáanlegar breytingar frá síðasta vísindamannaflugi sem var laugardaginn 9. júlí.

Fyrri greinNeyðarástand í ferðaþjónustu í Mýrdal
Næsta greinHarður árekstur á Selfossi