Nú um mánaðamótin urðu eigendaskipti á bílaleigunni Selfoss Car Rental þegar hjónin Orri Ýrar Smárason og Herdís Magnúsdóttir keyptu bílaleiguna af Jóhanni Þórissyni, sem hefur átt og rekið leiguna í um 20 ár.
Ekki eru áætlaðar breytingar á starfseminni og munu þau að halda áfram þar sem frá var horfið við að þjónusta Selfyssinga og Sunnlendinga með bílaleigubíla og tengda starfsemi.
Samhliða eigendaskiptunum mun starfsemin flytja í nýtt húsnæði að Tryggvagötu 2a og gera út þaðan.
„Mér lýst bara mjög vel á þetta fyrirtæki en kaupin hafa haft svolítinn aðdraganda. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bílum og hef starfað við bílgreinar um nokkurt skeið,” segir Orri sem hefur unnið síðustu misseri á Bílasölu Selfoss.
„Við hlökkum til að takast á við ný verkefni, við tökum við góðu búi og ætlum að leggja okkur fram við að halda því háa þjónustustigi sem Jói hefur haft að leiðarljósi í þessi 20 ár. Svo eru alltaf möguleikar á því að stækka og útvíkka starfsemina með tíð og tíma,” segir Orri að lokum