Þann 2. janúar næstkomandi mun ný og glæsileg heilsuræktarstöð World Class opna í Sundhöll Selfoss. Iðnaðarmenn vinna nú að lokafrágangi og fyrstu tækin voru flutt inn í stöðina í gær.
„Við erum öll rosalega spennt fyrir opnuninni og teljum Selfoss vera frábæra viðbót fyrir World Class utan Reykjavíkur. Mikið af okkar viðskiptavinum búa á Selfossi og nágrenni og vinna í Reykjavík. Þetta er aukin þjónusta við þá og einnig þá sem eiga sumarhús á svæðinu sem og alla aðra,“ segir Hafdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri World Class.
Eitthvað fyrir alla
„Nýja heilsuræktarstöðin verður með fullbúnum 550fm tækjasal með nýjum Life Fitness og Hammer Strength líkamsræktartækjum, lóðum og öllum þeim fylgihlutum sem þurfa að vera þar inni til þess að jafnt vanir sem óvanir finni eitthvað við sitt hæfi. Einnig eru þrír hóptímasalir, hjólasalur með nýjum Life Fitness spinninghjólum, Hot Yoga salur og svo fjölnota salur,“ segir Hafdís.
„Allir sem eiga kort geta nýtt sér þessa frábæru Sundhöll og þjálfara stöðvarinnar til þess að fá æfingaáætlun og kennslu á tækin. Einnig verða í boði opnir tímar í spinning, Hot Yoga, joga, Zumba, tabata, vaxtamótun og margt fleira. Sérstök lokuð námskeið og einkaþjálfun eru svo seld sérstaklega.“
Hafdís segir að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í heilsurækt eigi endilega að koma á staðinn og kynna sér aðstöðuna og fá upplýsingar hjá starfsfólki hvað sé í boði og hvað gæti hentað viðkomandi.
„Gott ráð er að taka til íþróttafötin í töskuna og hafa hana tilbúna við útidyrnar áður en farið er að sofa. Ef ákvörðunin er að fara í hóptíma þá er mjög gott að bóka sig í þá í gegnum „mínar síður“ á worldclass.is. Þá er búið að tryggja sér pláss og viðkomandi verður að mæta því annars er það „skammarkrókurinn.“ Þetta veitir gott aðhald og minnkar líkurnar á að láta heilsuræktina verða útundan,“ segir Hafdís.
Enginn annar getur hugsað um okkar heilsu
„Það er ekkert erfitt að taka ákvörðunina en það er ótrúlegt hvað hægt er að finna mikið annað sem þarf að gera. En um leið og við áttum okkur á að þetta er okkar andlega og líkamlega heilsa sem engin annar getur hugsað um og bætt þá verður heilsuræktin forgangsatriði og ekkert sem truflar þann klukkutíma sem við þurfum til þess að rækta okkur. Síðan verður þetta svo gott og skemmtilegt að það hvarflar ekki að manni að mæta ekki,“ segir Hafdís og bætir því við að bætt heilsa sé betra líf.
Sem fyrr segir opnar World Class á Selfossi þann 2. janúar næstkomandi. Opið hús verður þann dag á milli klukkan 14 og 17. Allir eru velkomnir og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu World Class.