Selfoss tapaði 2-4 þegar KA kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Selfoss leiddi í hálfleik en fékk fjögur mörk í bakið í síðari hálfleik.
Selfyssingar komust yfir á 12. mínútu leiksins þegar Andri Björn Sigurðsson skoraði með góðu skoti úr teignum eftir frábæran undirbúning Elton Barros. Á næstu mínútum áttu KA menn tvö góð færi en Vignir Jóhannesson varði vel frá Arsenij Buinickij á 15. mínútu og tveimur mínútum síðar skaut Ævar Jóhannesson rétt framhjá Selfossmarkinu.
Annars var fyrri hálfleikurinn frekar tíðindalítill og einkenndist af harðri baráttu á miðsvæðinu. Á 31. mínútu varði Vignir vel frá Hallgrími Mar Steingrímssyni eftir dapran varnarleik Selfyssingar og fjórum mínútum síðar skapaðist hætta upp við mark KA.
Einar Ottó Antonsson átti þá frábæran sprett upp í vinstra hornið og Srdjan Rajkovic, markvörður KA, átti í mestu vandræðum með fyrirgjöf Einars sem var næstum farin í netið. Magnús Ingi Einarsson var óheppinn að ná ekki til boltans í frákastinu en Rajkovic gómaði knöttinn á undan honum.
Staðan var 1-0 í hálfleik og Selfyssingar voru fyrri til þess að láta að sér kveða í þeim síðari. Magnús Ingi kom þá boltanum fyrir markið en Barros fór illa með gott færi.
KA menn voru sterkari framan af síðari hálfleik og þeir náðu að jafna metin á 59. mínútu þegar Ævar Jóhannesson hirti boltann í öftustu línu Selfossliðsins, brunaði að marki og lagði knöttinn í fjærhornið. Tíu mínútum síðar skoraði Jóhann Helgason svo beint úr aukaspyrnu og staðan orðin 1-2.
Selfyssingar vildu fá vítaspyrnu á 75. mínútu þegar brotið var á Ragnari Gunnarssyni inni í vítateig KA og í kjölfarið fylgdi þung sókn Selfyssinga sem lauk með því að Þorsteinn Daníel Þorsteinsson sendi boltann fyrir markið þar sem Ingi Rafn Ingibergsson beið á fjærstöng og kláraði með skoti og marki.
Staðan var þó aðeins 2-2 í tvær mínútur því á 79. mínútu steinsofnuðu Selfyssingar á verðinum og gestirnir nýttu sér það, 2-3 þar sem Jóhann var aftur á ferðinni. Þeir vínrauðu voru þó ekki hættir en Andy Pew átti þrumuskot á 82. mínútu sem Rajkovic varði vel.
Selfyssingar náðu ekki að ógna neitt að ráði á lokakaflanum en gestirnir bættu fjórða markinu við með skoti frá Hallgrími Mar utan af kanti en Vignir var þá farinn úr marki Selfoss til þess að flýta fyrir innkasti sem Selfyssingar áttu.
Þegar ein umferð er eftir af deildinni eru Selfyssingar í 9. sæti með 26 stig en síðasti leikur liðsins er í Grindavík næstkomandi laugardag.