Selfossbíó opnar aftur sunnudaginn 14. júlí og verða fyrstu sýningar kl. 12 á hádegi. Bíókóngarnir Axel Ingi Viðarsson og Marínó Geir Lilliendahl hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi bíósins á síðustu vikum og nú er komið að stóru stundinni.
„Myndirnar sem við opnum á eru Súpermanmyndin Man of Steel, The Lone Ranger með Johnny Depp og Brad Pitt myndin World War Z,“ sagði Axel Ingi í samtali við sunnlenska.is. Sýningar halda svo áfram allan daginn fram á kvöld.
„Það er gríðarlega mikil tilhlökkun sem fylgir opnuninni og ég fullyrði að þetta er fullkomnasta bíóið á landinu, bæði hvað varðar hljóð og mynd,“ segir Axel ennfremur.
Keyptur hefur verið nýr og fullkominn sýningarbúnaður í bíóið en með nýju tækjunum gefst m.a. kostur á að sýna myndir í þrívídd sem hefur ekki verið í boði síðustu ár á Selfossi. Þá er Dolby hljóðkerfið í bíóinu það besta sem völ er á.
„Þetta er búin að vera rosalega mikil vinna en mjög skemmtileg og nú er bara boltinn hjá Sunnlendingum að drífa sig í bíó,“ sagði bíóstjórinn að lokum.