Selfossbíói hefur verið lokað en síðustu sýningar í bíóinu voru í kvöld. Eigendur Hótel Selfoss hafa sagt upp leigusamningi Selfossbíós og ætla sjálfir að opna sitt eigið kvikmyndahús.
Þetta segir Axel Ingi Viðarsson, eigandi Selfossbíós, sem rekið hefur kvikmyndahúsið síðan í júlí 2013.
„Því miður verðum við að hætta en við viljum þakka gestum okkar kærlega fyrir þessi frábæru fimm ár sem við höfum rekið bíóið,“ segir Axel.
Selfossbíó var opnað árið 2004 og Sambíóin tóku við rekstri kvikmyndahússins í Hótel Selfoss árið 2007 og ráku það til 2012 en þá var bíóinu lokað. Axel Ingi opnaði svo Selfossbíó á nýjan leik árið 2013.