Selfosskirkja mun bjóða upp á fermingardag þann 30. ágúst næstkomandi fyrir þá sem vilja fresta fermingu vegna COVID-19.
Þetta kemur fram í pósti sem Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur, sendi á foreldra fermingarbarna í morgun.
Fyrsta ferming í Selfosskirkju verður þann 4. apríl næstkomandi og segir Guðbjörg að stefnt sé að því að ferma á auglýstum dögum í vor, svo lengi sem samkomubann verði ekki í gildi.
Ekki verður altarisganga í fermingarmessunum í vor og prestar munu, í varúðarskyni, ekki heilsa fermingarbörnum með handabandi í athofninni eins og venja er. Mögulega þarf einnig að takmarka þann fjölda sem fylgja má hverju barni til athafnarinnar.
„Ef yfirvöld setja á samkomubann falla vitaskuld allar fermingar á því tímabili niður. Þá munum við hafa hraðar hendur og bæta við fleiri nýjum fermingardögum síðsumars,“ segir Guðbjörg.