Tímamót urðu í dag í fráveitumálum á Selfossi þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri hreinsistöð á bökkum Ölfusár, við Geitanes á Selfossi.
„Þetta er tímamótaskóflustunga. Þetta hefur tekið langan tíma, en nú er umhverfismati lokið og hægt að hefja hér vinnu. Margir hafa komið að verkefninu, bæði starfsmenn sveitarfélagsins, verkfræðingar og fjölmargir kjörnir fulltruar sem ég vil þakka fyrir þeirra vinnu. Það er mér ánægjulegt að fá Gunnar Egilsson, fyrrum formann framkvæmda- og veitunefndar með mér að taka skóflustunguna en hann risastóran þátt í þessu verkefni,“ sagði Sveinn Ægir Birgisson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, áður en hann og Gunnar tóku skóflustunguna.
Gjörbreytir umhverfismálum í sveitarfélaginu
„Stöðin mun gjörbreyta umhverfismálum í sveitarfélaginu. Vinna á verkstað mun hefjast strax í næstu viku á jarðvinnu fyrir stöðina og útrásum í Ölfusá. Næsta verk er síðan að fara í útboð á byggingunni sjálfri og vonumst við til að gera það fyrir árslok. Þetta er hátíðardagur fyrir íbúa sveitarfélagsins og brátt geta Selfyssingar skilað úrgangi sínum með stolti,“ sagði Sveinn Ægir ennfremur og uppskar hlátur og lófaklapp.
Þegar stöðin verður tekin í notkun verður þar 1. þreps hreinsun, þar sem föst efni verða skilin frá, til eins árs til prufu en eftir þann tíma verður metið hvernig búnað þarf til að hefja 2. þreps hreinsun.
Verktakafyrirtækið Þjótandi sér um jarðvinnuna og mun hefja þar vinnu við lagningu útrásar- og yfirfallslagna, sem og að grafa fyrir byggingu á hreinsistöðinni sjálfri.