Hraunið úr gosinu á Fimmvörðuhálsi færðist um 6 metra á klukkutíma, samkvæmt mælingu félaga úr Björgunarfélagi Árborgar sem fóru inn Hrunagil í gærkvöldi. Þeir mældu hitann á vatninu í ánni og mældist það 29 gráður.
Ármann Ingi Sigurðsson, formaður Björgunarfélagsins, sagði í samtali við sunnlenska.is að það hafi verið magnað sjónarspil að sjá glóandi hrauntunguna skríða fram. Björgunarsveitarmennirnir gengu töluverðan spöl inneftir gilinu og dvöldu þar í góða stund við rannsóknir og mælingar.